Ólafur Páll Snorrason, fyrirliði FH, var að vonum svekktur eftir að FH-ingar duttu út úr forkeppni Meistaradeildarinnar í dag.
„Þetta eru mikil vonbrigði. Við hefðum átt að gera betur en við í raun gerðum. Ég er svolítið svekktur," sagði Ólafur Páll í samtali við Stefán Árna Pálsson, í beinni útsendingu Stöð 2 Sport frá leiknum.
„Við sýndum að við erum ekkert mikið síðri en þeir í fótbolta. Það sem klikkum á er ákvarðanatökur á síðasta þriðjungnum og þar er ég meðal þeirra manna sem eru að taka vitlausar ákvarðanir," sagði Ólafur Páll.
En hvað með framhaldið og þáttökuna í Evrópudeildinni? „Ég hef lítið spáð í því. Ég hef einbeitt mér að þessum leik. Nú tekur við smá pása í Evrópukeppni. Þetta hafa verið mjög erfiðir leikir og ágætt að fá smá hlé og geta einbeitt sér að deildinni," sagði Ólafur Páll.
