Breiðablik sækir Aktobe frá Kasakstan heim í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudag. Á heimasíðu Aktobe situr Aleksandar Trajkovic, serbneskur leikmaður Víkings í Reykjavík, fyrir svörum um íslenskan fótbolta.
Trajkovic gekk í raðir Víkinga fyrr í mánuðinum en hann spilaði áður í Kasakstan. Hann segir Breiðablik ekki spila hefðbundinn skandinavískan fótbolta.
„Breiðablik reynir að spila boltanum sín á milli og byggja leik sinn á 4-3-2-1 leikkerfinu," segir Trajkovic. Beðinn um að nefna sterkustu leikmenn Blika segir hann:
„Þeirra besti leikmaður er í treyju númer tíu," segir Trajkovic og á við miðjumanninn sparkvissa Guðjón Pétur Lýðsson. Hann segir Íslendinga meðvitaða um gæði knattspyrnunnar í Kasakstan og hafa verið spurður út í Aktobe á Íslandi.
„Ég sagði þeim að liðið væri ávalt á meðal efstu liða og spilaði fallegasta fótboltann í Kasakstan,” segir Trajkovic. Hann varar Aktobe við að búa sig undir líkamlegan leik og að verjast hornspyrnum.
Að lokum spáir hann Aktobe sigri í báðum leikjum.
