Viðskipti erlent

Söngvari Iron Maiden stofnar eigið flugfélag

Bruce Dickinson söngvari hljómsveitarinnar Iron Maiden er að stofna sitt eigið flugfélag. Dickinson er þekktur flugmaður og hann starfaði m.a. sem flugmaður hjá Iceland Express.

Í frétt um málið á vefsíðunni e24.no segir að Dickinson hafi starfað sem flugmaður í 20 ár og eigi að baki yfir 7.000 flugtíma.  Hann var síðast flugmaður hjá Astraeus Airlines en missti það starf árið 2011 þegar flugfélagið varð gjaldþrota. Hann hefur rekið viðhaldsþjónustu fyrir flugvélar síðan, Cardiff Aviation Ltd., en hyggst nú færa út kvíarnar.

Dickinson ætlar að byrja með þrjár einkavélar og stækka svo flugfélag sitt hægt og rólega upp þar til hann hefur flugflota til áætlunarferða.

Dickinson er sterkefnaður eftir veru sína í hljómsveitinni Iron Maiden en auðæfi hans eru metin á um 100 milljónir dollara. Hann reiknar með að hið nýja flugfélag sitt muni taka til starfa í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×