Viðskipti erlent

Útbreiðsla dagblaða hrynur í vestri en blómstrar í austri

Stofnunin The World Press Trends, sem safnar upplýsingum um dreifingu dagblaða og tekjur þeirra í 70 löndum, hefur sent frá sér skýrslu þar sem fram kemur að útbreiðsla dagblaða hefur hrunið á Vesturlöndum á meðan hún blómstrar í Asíu.

Á tímabilinu frá 2008 til 2012 varð aðeins minniháttar samdráttur í útbreiðslu dagblaða á heimsvísu eða úr 537 milljónum eintaka niður í 530 milljónir eintaka. Munurinn er hinsvegar sláandi milli heimsálfa.

Í Bandaríkjunum hefur útbreiðsla dagblaða dregist saman um 15% á fyrrgreindu tímabili og tekjur þeirra hafa minnkað um 42%. Í Evrópu má taka sem dæmi að útbreiðslan í Þýskalandi hefur minnkað um 10%,  í Bretlandi um 26,6% og í Danmörku um 42%. Í Evrópu í heild hefur útbreiðsla dagblaða og tekjur af þeim minnkað um 25%.

Allt aðra sögu er að segja í Asíu en þar hefur útbreiðsla dagblaða aukist um 10% í heildina. Mesta aukningin hefur orðið í Kína eða 33%. Kína er orðið það land þar sem mest er prentað af dagblöðum eða um 114,5 milljónir eintaka á dag. Af öðrum Asíulöndum má nefna að í Indlandi hefur útbreiðslan aukist um tæp 8% og í Hong Kong um tæp 5%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×