Fótbolti

Heynckes í hóp með Mourinho og fleiri góðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jupp Heynckes, þjálfari Bayern München.
Jupp Heynckes, þjálfari Bayern München. Mynd/Nordic Photos/Getty

Jupp Heynckes, þjálfari Bayern München, stýrði liði sínu til sigurs í Meistaradeildinni í kvöld en liðið vann þá 2-1 sigur á Borussia Dortmund í úrslitaleik á Wembley-leikvanginum í London. Hollendingurinn Arjen Robben skoraði sigurmarkið mínútu fyrir leikslok.

Jupp Heynckes varð 19. þjálfarinn til að vinna Meistaradeildina tvisvar sinnum en hann vann hana einnig með spænska liðinu Real Madrid árið 1998.

Heynckes komst jafnframt í fámennan hóp með þremur öðrum þjálfurum sem hafa unnið Evrópukeppni meistaraliða með tveimur félögum. Hinir eru Ernst Happel, Omar Hitzfeld og Jose Mourinho.

Mourinho vann með Porto (2004) og Internazionale (2010), Happel með Feyenoord (1970) og Hamburger SV (1983) og Hitzfeld með Dortmund (1997) og Bayern München (2001).

Jupp Heynckes fær þó ekki að halda áfram með lið Bayern München því Pep Guardiola tekur við liðinu í sumar. Það verður þó erfitt fyrir Guardiola að gera betur því Bayern er á góðri leið með að vinna þrennuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×