Formúla 1

Rosberg vann Mónakó 30 árum á eftir pabba

Birgir Þór Harðarson skrifar
Rosberg var fyrstu í gegnum fyrstu beygju eftir ræsinguna.
Rosberg var fyrstu í gegnum fyrstu beygju eftir ræsinguna.

Nico Rosberg, ökumaður Mercedes-liðsins í Formúlu 1, vann Mónakókappaksturinn í dag. Hann leiddi mótið frá fyrsta hring og hélt forystunni örugglega allt mótið. Keke Rosberg, pabbi Nico, vann mótið fyrir þrjátíu árum, árið 1983.

"Þetta er mjög sérstakt fyrir mig," sagði Rosberg í talstöðina þegar hann ók bílnum til baka til að þyggja verðlaunin frá Alberti prins. Nico er alinn upp í Mónakó þó hann aki undir þýsku flaggi.

Sebastian Vettel varð annar í Red Bull-bílnum sínum og setti hraðasta hring mótsins í næst síðasta hring eftir að hafa verið beðinn um að passa upp á dekkin. "Þetta er nóg Sebastian. Þú færð ekki fleiri stig fyrir hraðasta hring," sagði Rocky, vélvirki Vettels í talstöðina. Vettel svaraði einfaldlega: "En mér þykir þetta skemmtilegt."

Kimi Raikkönen á Lotus hafði ekið gott mót og haldið sér í stigasæti allt þar til aðeins nokkrir hringir voru eftir. Þá lenti hann í samstuði við Sergio Perez með þeim afleiðingum að vinstra afturdekkið sprakk. Hann komst inn á viðgerðarsvæðið og kom aftur út á brautina í 16 sæti. Það var því nokkuð ólíklegt að hann myndi ná stigum í mótinu eins og hann hefur gert í síðustu 36 mótum. Allt kom fyrir ekki, Kimi kláraði í tíunda og síðasta stigasætinu.

Mark Webber varð þriðji á Red Bull efitr að hafa haldið aftur af Lewis Hamilton, liðsfélaga Rosbergs, stóran hluta mótsins. Adrian Sutil ók stórkoslega í Force India-bílnum seinni hluta kappakstursins og endaði fimmti á undan Jenson Button á McLaren.

Fernando Alonso átti ekki góðan dag en endaði þó sjötti. Ferrari-liðið sagði að rusl af brautinni hafi fests í framvængnum og eyðilagt loftflæðið um bílinn. Alonso hafi þess vegna ekki verið í sínu besta formi.

Öryggisbíllinn kom þrisvar út í kappakstrinum vegna slysa og árekstra. Fyrst var það Felipe Massa sem lenti í svipuðu slysi og í gærmorgun í fyrstu beygju brautarinnar við kirkju St. Devote. Honum var ekið á sjúkrahús til skoðunar. Þá lentu Max Chilton og Pastor Maldonado saman fyrir Tabac með þeim afleiðingum að Williams-bíll Maldonado stökk í loft upp og svo í bárujárnið. Maldonado gekk af slysstað en mótið var stöðvað svo hægt væri að laga skemmdirnar á öryggisveggnum.

Þá þurfti að kalla öryggisbílinn aftur út þegar Romain Grosjean ók Lotus-bíl sínum beint aftan á Daniel Ricciardo á Toro Rosso. Báðir féllu úr keppni en Grosjean gæti átt yfir höfði sér refsingu fyrir akstursbrot og að hafa ollið slysi.

Eftir kappaksturinn í Mónakó er Vettel efstur í stigamóti ökumanna með 107 stig, 21 stigi á undan Raikkönen sem er með 86. Alonso er með 78 stig og Hamilton með 62. Sigurvegari dagsins er með 47 stig í sjötta sæti.

Í stigakeppni keppnisliða er Red Bull með 41 stiga forskot á Ferrari. Lotus og Mercedes fylgja svo á eftir.

Næsta mót fer fram í Montréal í Kanada eftir tvær vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×