Viðskipti erlent

Fjárfestar spá nýrri evrukreppu í sumar

Meirihluti evrópskra fjárfesta telur að ný evrukreppa muni skella á í sumar. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunnar á vegum matsfyrirtækisins Fitch Ratings.

Fjallað er um málið á vefsíðu börsen. Þar segir að fjárfestar þeir sem tóku þátt í könnuninni stjórni samanlagt fjármagni sem nemur um 8.600 milljörðum evra.

Fram kemur að 59% af þessum fjárfestum reikna með nýrri evrukreppu í sumar. Þar af segja 29% að sú ró sem komist hefur á fjármálamarkaði í Evrópu undanfarnar vikur og mánuði verði ekki langlíf. 30% segja að markaðir hegði sér ekki eðlilega í augnablikinu og horfi framhjá merkjum um að efnahagsleg framtíð Evrópu lítur ekki vel út sem stendur.

Afgangurinn eða 41% telur hinsvegar að það versta sé yfirstaðið hvað varðar skuldakreppuna á evrusvæðinu. Gífurleg inngrip seðlabanka Evrópu hafi bjargað stöðunni og aukið bjartsýni á framtíðina.

Fitch Ratings hallast að skoðunum þeirra svartsýnu í hópi fyrrgreindra fjárfesta. Fitch bendir á þversögnina sem ríkir í efnahagsmálum Evrópu þar sem á aðra hönd hefur verið mikill uppgangur í kauphöllum álfunnar en á hina höndin haldi atvinnuleysi stöðugt áfram að vaxta í flestum löndum hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×