Þýska liðið Bayern München bauð til veislu á Allianz-vellinum í kvöld er liðið kjöldró hið stórkostlega lið Barcelona og vann ótrúlegan 4-0 sigur sem seint mun gleymast.
Bayern er því komið með annan fótinn í úrslit Meistaradeildarinnar en þetta var fyrri leikur liðanna í undanúrslitum keppninnar.
Leikurinn byrjaði með miklum látum. Bæði lið sóttu af krafti og líf í leiknum. Fyrsta markið kom eftir 25 mínútna leik. Þá endaði þung sókn Bayern með því að Thomas Müller stangaði boltann í netið af stuttu færi.
Þýska liðið byrjaði síðari hálfleikinn með látum. Robben tók horn sem flaug yfir á fjærstöng. Þar skallaði Müller boltann fyrir og Gomez mokaði honum yfir línuna.
Gomez er mikil markamaskína og þá sérstaklega á heimavelli í Meistaradeildinni. Þetta var hans 15. mark í 14 leikjum á Allianz-vellinum.
Veislunni var ekki lokið í Bæjaralandi því Arjen Robben skoraði mark úr þröngu færi eftir magnað einstaklingsframtak og Gomez bætti fjórða markinu við átta mínútum fyrir leikslok.
Þetta var í fyrsta skipti síðan árið 2005 að Barcelona fær á sig fjögur mörk í Meistaradeildinni. Chelsea gerði það síðast.
Stærsta tap Barcelona í Evrópukeppnum fyrir kvöldið var gegn Dynamo Kiev. Sá leikur endaði 4-0 og fór fram í nóvember árið 1997. Það vonda met var jafnað á þessu skelfilega kvöldi fyrir Barcelona.
Leikmenn Bayern gátu aftur á móti leyft sér að fagna en þeir spiluðu hinn fullkomna leik.

