Fótbolti

Ferguson hefur áhuga á Lewandowski

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lewandowski í leiknum gegn Real Madrid
Lewandowski í leiknum gegn Real Madrid Mynd. / Getty Images
Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur gefið það í skyn að hann hafi áhuga á því að klófesta Robert Lewandowski frá Borussia Dortmund í sumar en leikmaðurinn hefur farið á kostum með þýska félaginu í vetur.

Leikmaðurinn hefur verið orðaður við þýska stórveldið Bayern Munich að undanförnu en liðsfélagi hans Mario Gotze hefur nú þegar gengið frá samningi við FC Bayern.

Lewandowski gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fjögur mörk Dortmund í 4-1 sigri á Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku og er einn heitasti bitinn á markaðnum um þessar mundir.

„Þegar réttur leikmaður er á lausu þá verður maður að vera tilbúinn til að taka af skarið og reyna fá hann til liðsins,“ sagði Ferguson í viðtali ytra.

„Það er alltaf pláss fyrir menn í hæsta gæðaflokki í okkar hóp. Ég er ekki viss um hvort Lewandowski eigi eftir að fara yfir til erkifjendanna í FC Bayern, það væri ekki vinsælt hjá stuðningsmönnum Dortmund.“

„Ég tel að leikmaðurinn eigi frekar eftir að klára samning sinn við félagið eða þeir selja hann til félags utan Þýskalands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×