Lionel Messi verður orðinn leikfær þegar að Barcelona mætir Bayern München í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Meistaradeild Evrópu í næstu viku.
Þetta fullyrða spænskir fjölmiðlar og segja að hann hafi fengið fregnirnar á æfingu í dag.
Messi hefur verið að glíma við meiðsli aftan í læri og misst af síðustu tveimur deildarleikjum Barcelona. Hann kom þó inn á sem varamaður þegar að Börsungar mættu franska liðinu PSG í fjórðungsúrslitum Meistaradeildarinnar.
PSG var 1-0 yfir þegar að Messi kom inn á og breytti leiknum. Hann átti þátt í jöfnunarmarkinu og dugði jafnteflið til að fleyta Barcelona áfram í undanúrslit keppninnar.
Barcelona mætir Levante á laugardaginn og óvíst hvort að Messi spili með í þeim leik. Líklegast verður þó að telja að hann muni hvíla fyrir viðureignina mikilvægu gegn Bayern í næstu viku.
