Galatasaray lét Real Madrid hafa fyrir hlutunum í síðari viðureign liðanna í fjórðungsúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Madrídingar unnu fyrri leikinn á heimavelli, 3-0, og því í afar sterkri stöðu fyrir leikinn í kvöld. Hún varð enn betri á áttundu mínútu þegar að Cristiano Ronaldo kom Madrídingum yfir.
Heimamönnum gekk illa að skapa sér færi en það breyttist þegar að Emmanuel Eboue skoraði stórglæsilegt mark með gríðarföstu skoti á 57. mínútu leiksins.
Wesley Sneijder klúðraði dauðafæri stuttu síðar en bætti fyrir það á 71. mínútu er hann skoraði eftir laglegan sprett.
Aðeins mínútu síðar var komið að Didier Drogba sem skoraði með fallegri bakhælsspyrnu. Hann skoraði aftur stuttu síðar en markið var dæmt af vegna rangstöðu.
En Ronaldo eyddi allri óvissu á lokamínútum leiksins er hann skoraði annað mark sitt og Madrídinga í leiknum. Real Madrid vann því samanlagt, 5-3, og er komið áfram í undanúrslit keppninnar.
Alvaro Arbeloa, leikmaður Real Madrid, fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins fyrir tvær áminningar á jafn mörgum mínútum. Fyrst fyrir brot og svo fyrir mótmæli. Hann missir því af fyrri leik Real í undanúrslitunum.
Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.
Real áfram þrátt fyrir tap

Tengdar fréttir

Skoruðu þrisvar gegn Real á 28 mínútum
Það eru líklega fáir sem hafa trú á endurkomu Galatasaray gegn Real Madrid í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.