Fótbolti

Leonardo með bónorð í beinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leonardo og Anna Billo.
Leonardo og Anna Billo. Mynd/Nordic Photos/Getty
Leonardo, íþróttastjóri franska liðsins Paris Saint Germain, var mættur í viðtöl eftir að í ljós kom að PSG mætir Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar en það var dregið fyrr í dag. Hann mun þó minnast dagsins fyrir annað.

Leonardo notaði nefnilega tækifærið í sjónvarpsviðtali um komandi viðureignir PSG og Barcelona og bað kærustu sína, Anna Billo, sem var að taka viðtal við hann, um að giftast sér.

„Ég hef eina spurningu fyrir Önnu," sagði Leonardo og Anna Billo svaraði: „Já." „Viltu giftast mér?," spurði síðan Leonardo.

Anna Billo varð mjög vandræðaleg og sagði: „Hvers konar spurning er það?," svaraði Anna Billo og bað Leonardo um að halda viðtalinu áfram og að þau myndu ræða málin betur heima.

Massimo Mauro í stúdíóinu setti þá pressu á Önnu að hún myndi svara já eða nei og hún sagði þá „Allt í lagi þá" við mikinn fögnuð í stúdíóinu. „Allt í lagi, við skulum halda veisluna bæði í Mílanó og í Brasilíu," sagði Leonardo hæstánægður.

Leonardo var þá loksins til í að ræða viðureignirnar við Barcelona. „Við gátum ekki fengið erfiðari drátt því við mætum besta liðinu í keppninni. Við spilum auk þess seinni leikinn á þeirra heimavelli. Þetta verður ekki auðvelt en við bíðum spenntir eftir að fá að vera með í þessari fótboltaveislu. Við fáum þarna tækifæri til að prófa okkur á móti einu besta liði allra tíma," sagði Leonardo.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×