Viðskipti erlent

Mikill niðurskurður á fjárlögum Bandaríkjanna tekur gildi í dag

Allar líkur eru á að í dag taki gildi umfangsmikill niðurskurður á fjárlögum Bandaríkjanna. Niðurskurðurinn hljóðar upp á 85 milljarða dollara og bitnar einna helst á útgjöldum til varnarmála.

Öldungadeild bandaríkjaþings náði ekki samkomulagi um málið í nótt og kenna Demókratar og Repúblikanar hvorir öðrum um stöðuna. Hvor flokkurinn um sig lagði fram frumvarp til að koma í veg fyrir niðurskurðinn en hvorugt náði fram að ganga.

Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur boðað leiðtoga beggja flokka á fund sinn í dag en ekki er búist við neinni niðurstöðu á honum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur varað við þessari stöðu og segir hana ávísun á samdrátt í efnahagslífi Bandaríkjanna. Sjóðurinn hefur því dregið úr hagvaxtarspá sinni fyrir Bandaríkin í ár. Fyrri spá hljóðaði upp á 2% hagvöxt en vegna þeirrar stöðu sem komin er upp hefur sjóðurinn minnkað spá sína niður í 1,5% hagvöxt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×