Fótbolti

PSG gerði nóg til að komast áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
PSG og Valencia gerðu jafntefli, 1-1, í Frakklandi í kvöld en úrslitin þýða að heimamenn eru komnir áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu, í fyrsta sinn í átján ár.

PSG vann samanlagt, 3-2, eftir 2-1 sigur í fyrri leiknum á Spáni. Zlatan Ibrahimovic var í banni og lagði því Carlo Ancelotti, stjóri PSG, upp með að verja forystu sína úr fyrri leiknum.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en Valencia náði svo að hleypa lífi í leikinn þegar Jonas skoraði með flotti skoti á 55. mínútu.

PSG náði þó að bregðast við skömmu síðar. Liðið komst í skyndisókn og Ezequiel Lavezzi komst skyndilega einn gegn markverði Valencia. Hann lét fyrst verja frá sér en fylgdi eftir skotinu og stýrði boltanum í netið.

Spánverjarnir reyndu hvað þeir gátu eftir þetta að tryggja sér framlengingu en allt kom fyrir ekki. Frakkarnir náðu að verja sitt með kjafti og klóm og fögnuðu svo gríðarlega þegar að leikurinn var flautaður af.

David Beckham var á bekknum hjá PSG í kvöld og kom ekki við sögu í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×