Adele syngur Skyfall á Óskarnum

Breska söngkonan Adele vakti mikla aðdáun á Óskarsverðlaunahátíðinni í nótt. Hún flutti Bond-lagið Skyfall á sinn einstaka hátt. Stuttu seinna fékk hún síðan Óskarsverðlaun fyrir Skyfall í flokknum besta frumsamda lagið. Bond-myndirnar voru heiðraðar sérstaklega á Óskarnum í gær en söngkonan Shirley Bassey flutti einnig Bond-lagið Goldfinger. Adele tók á móti verðlaununum ásamt meðhöfundi sínum, Paul Epworth. Hún þakkaði eiginmanni sínum, Simon Konecki sérstaklega fyrir og tjáði honum ást sína. Adele fékk einnig Golden Globe-verðlaun fyrir lagið fyrir rúmum mánuði síðan. Perez Hilton ofurbloggari birti söngatriði Adele á síðunni sinni stuttu eftir hátíðina. Hægt er að sjá það hér fyrir neðan.