Fótbolti

Messi skoraði og lagði upp tvö í sigri Barcelona

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Lionel Messi var í aðahlutverki hjá Barcelona þegar liðið lagði Malaga að velli 3-1 í Andalúsíu í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leikur liðanna var afar fjörugur og var hart barist sérstaklega í fyrri hálfleik. Messi kom gestunum yfir um miðjan hálfleikinn þegar hann komst inn í sendingu Ignacio Camacho, miðjumanns Malaga. Messi lék á landa sinn Willy Caballero í marki heimamanna og renndi boltanum í opið markið.

Börsungar réðu gangi mála frá fyrstu mínútu í síðari hálfleik og uppskáru fljótlega mark. Messi átti þá frábæra sendingu á Cesc Fabregas sem sendi boltann í stöng og inn. Snyrtilegt mark og forysta gestanna verðskulduð.

Varamaðurinn Tiago Alcantare bætti þriðja marki Börsunga við með fínu skoti utan teigs eftir veggspil við Messi. Annar Argentínumaður, Diego Buonanotte, minnkaði muninn undir lok leiksins með fallegu skoti úr aukaspyrnu.

Eftir sigurinn hefur Barcelona ellefu stiga forskot á Atletico Madrid á toppi deildarinnar. Real Madrid er í þriðja sæti heilum 18 stigum á eftir Börsungum. Malaga, sem situr í fimmta sæti, fær tækifæri til þess að hefna tapsins í kvöld strax á þriðjudaginn. Þá sækir liðið Börsunga heim á Nývang í Konungsbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×