Menning

Þykir vænst um þá texta sem fá minnstu athyglina og hólið

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Megas er ánægður og stoltur af rúmlega sjöhundruð blaðsíðna textasafni sínu.
Megas er ánægður og stoltur af rúmlega sjöhundruð blaðsíðna textasafni sínu. Vísir/Anton
Megas er umsvifamikill í jólavertíðinni í ár. Nýlega kom út bók þar sem er að finna yfir 600 texta frá meistaranum og um mánaðamótin kemur út fjögurra diska safnplata með lögum Megasar til síðustu tíu ára. Sjálfur kveðst hann nokkuð ánægður með hvoru tveggja.

„Það er nú þannig að það er betra að fá vondu gagnrýnina en þessa góðu. Það er gagnrýnin sem maður getur dregið einhvern lærdóm af," segir tónlistarmaðurinn Megas kankvís og bætir við að hann sé sjálfur óhræddur við gagnrýni enda sé hann orðinn sjóaður í þeim efnum. „Einu sinn sagði einhver gagnrýnandi að textarnir mínir væru skotheldir eins og venjulega. Það sagði mér ekki neitt."

Yfir sex hundruð textar

Textar bókarinnar spanna árin 1966 til 2011 og eru yfir sex hundruð talsins. Hugmyndin að verkinu kviknaði fyrir tveimur árum og segir Megas Jóhann Pál, útgefanda hjá Forlaginu, eiga heiðurinn að því að ráðist var í gerð þess. Þetta er í annað sinn sem bók með textasafni Megasar kemur út en sú fyrri, Textar, kom út árið 1991 og seldist upp undir eins.

„Jóhann kom á máli við mig og bryddaði upp á þessari hugmynd fyrir tveimur árum síðan. Ég tók vel í það. Ætli það hafi ekki tekið um eitt og hálft ár að safna þessu saman, en ég var með gott fólk sem aðstoðaði mig í að fara yfir textamöppurnar," segir Megas og á þar meðal annars við Guðmund Andra Thorsson, sem sá um að ritstýra verkinu. „Þetta er vel lesið yfir. Hingað til hef ég bara séð eina villu, sem þykir nokkuð gott." 

Skemmtilegar ljósmyndir prýða einnig síður bókarinnar, sumar úr einkasafni meistarans.

Myndirnar fanga tíðarandann

Hátt í tvö hundruð ljósmyndir prýða bókina. Myndirnar sýna Megas á ýmsum tímabilum í sínu lífi, margar úr hans persónulega albúmi og aðrar teknar af ljósmyndurum.

„Það eru margar flottar myndir þarna sem gaman er að skoða og rifja upp," segir Megas glottandi.

Ein af uppáhaldsmyndunum hans í bókinni er á blaðsíðu 8 og sýnir tónlistarmanninn liggjandi í grasinu með pípu í munnvikinu á sjöunda áratugnum. „Mér finnst þessi ansi skemmtileg, því hún fangar bæði tíðarandann og augnablikið vel. Ég held að fyrrverandi kærasta mín hafi tekið hana."

Ljósmyndir eru ekki einu myndskreytingar bókarinnar því á víð og dreif um blaðsíðurnar eru teikningar eftir Megas sjálfan. „Mér fannst ágætt að skreyta síðurnar með þessu, það gefur þessu skemmtilegan blæ." 



Ekki ljóðabók

Í formála bókarinnar, sem er handskrifaður af Megasi, telur hann ástæðu til að taka sérstaklega fram að bókin sé ekki ljóðabók heldur safn söngtexa. Ástæðan fyrir því er að Megasi er ekki vel við að söngtextum hans sé ruglað saman við ljóð.

„Þetta eru textar gerðir til söngs, þótt nótur fylgi bara tveimur textum í bókinni. Sumir textarnir hafa verið sungnir og eru til á plötu en aðrir ekki. Sá sem les bókina verður að hafa í huga að þetta eru söngtextar."



Áskorun að semja á íslensku

Megas semur á íslensku. Honum líkar illa við að semja á útlensku. Megas er ekki hrifinn af þeirri þróun að íslenskir tónlistarmenn séu farnir að færa sig í auknum mæli yfir í enska textasmíð.

„Enskan er uppfull af klisjuorðum sem eru ekki til í íslenskunni. Þess vegna finnst mér lítil áskorun að semja á ensku og það verður oft bara eitthvert þvaður. Að mínu mati er Björk sú eina sem getur samið texta á ensku eins og innfædd."

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja meistarann hvort einhver af textunum sexhundruð beri höfuð og herðar yfir aðra. 

„Á maður nokkuð að vera að gera upp á milli barnana sinna? Ætli mér þyki samt ekki örlítið vænna um þá sem minnsta athygli og hól hafa fengið gegnum tíðina, hvernig sem á því nú stendur."

40 ára útgáfuafmæli

Megas er nýbúinn að leggja lokahönd á fjögurra diska safnplötu sem kemur út í byrjun desember. Tilefnið er 40 ára útgáfuafmæli Megasar en lögin á plötunum spanna árin 1972-2012. Þrír diskanna eru með lögum sem Megas hefur gefið út í gegnum árin en sá fjórði inniheldur mestmegnis áður óútgefið efni. Sögusagnir hafa verið á sveimi þess efnis Megas hafi verið með jólaplötu í burðarliðnum undanfarið en hann þvertekur fyrir það.

„Það kom upp sú hugmynd að gera jólaplötu og einhverjir voru spenntir fyrir því. Mér leist hins vegar illa á það. Það eru samt tvö jólalög á þessum safndiski. Það verður að duga.“



Tímalína

Hér fyrir neðan er tímalína þar sem stiklað er á stóru á ferli Megasar. Hægt er að fletta myndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.