Tónlist

DJ Shadow sýnir gamla takta

GÓÐ GRÆJA Það er mynd af Akai MPC-tækinu framan á nýju DJ Shadow-plötunni.
GÓÐ GRÆJA Það er mynd af Akai MPC-tækinu framan á nýju DJ Shadow-plötunni.
DJ Shadow er listamannsnafn Kaliforníubúans Josh Davis sem er þekktastur fyrir plötuna Entroducing sem kom út árið 1996 og er eitt af höfuðverkum instrúmental hip-hop tónlistarbylgjunnar sem oftast er kölluð trip-hop. Hún var áberandi á síðari hluta tíunda áratugarins hjá útgáfum eins og Ninja Tune og MoWax. Entroducing er algjört meistaraverk, marglaga samsuða af töktum og tónum, sem stundum birtist þegar spekúlantar velja bestu plötur sögunnar – eins og skrattinn úr sauðaleggnum innan um allar Bítla- og Radiohead-plöturnar.

DJ Shadow er búinn að gera fjórar plötur síðan Entroducing kom út, en þær standa henni allar langt að baki. Fyrir fjórum árum byrjaði Josh hins vegar að gefa út tónlist sem hann gerði á árunum 1990 – 1992. Alls komu þrjár plötur frá þessu tímabili sem DJ Shadow kallar The 4-Track Era, enda vann hann tónlistina á fjögurra rása kassettutæki (Yamaha MT-100). Skemmtilegar plötur.

Fyrir nokkrum vikum kom svo út platan Total Breakdown: Hidden Transmissions From The MPC Era, en hún hefur að geyma áður óútgefna tónlist frá næsta skeiði, 1992 – 1996. Þá tónlist vann Josh á Akai MPC-tæki, en það var MIDI-upptökutæki og trommuheili sem kom upphaflega á markað árið 1988, en þróaðist með árunum yfir í öflugan sampler. Á meðal efnis á Total Breakdown er EP-plata sem DJ Shadow gerði með rapparanum Gift of Gab úr Blackalicious, en sú plata kom aldrei út á sínum tíma. Eins og 4-Track Era plöturnar er nýja platan stórskemmtileg. Tónlistin er einfaldari og frumstæðari heldur en hún varð á seinni stigum, en samt mjög flott.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×