Lífið

Ben Stiller hefur tökur í dag

Tökur byrjaðar Ben Stiller segist glaður að tökur séu loksins hafnar á myndinni.Nordicphotos/gett
Tökur byrjaðar Ben Stiller segist glaður að tökur séu loksins hafnar á myndinni.Nordicphotos/gett
Tökur á The Secret Life of Walter Mitty hefjast í dag en það er Hollywoodleikarinn Ben Stiller sem bæði leikur og leikstýrir myndinni. Stiller hefur verið í Reykjavík undanfarnar vikur við undirbúning á tökum.

Það er íslenska framleiðslufyrirtækið True North sem aðstoðar Stiller og tökuliðið frá Hollywood hér á landi og Andrea Brabin hjá Eskimo Models hefur aðstoðað við að finna íslenska aukaleikara. Stiller fer með aðalhlutverkið en auk þess er gamanleikkonan Kristen Wiig í stóru hlutverki sem og leikararnir Adam Scott, Sean Penn og Shirley MacLaine. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort einhverjir af ofantöldum eigi eftir að bætast í hóp Íslandsvina.

Tökur fara víðs vegar fram, svo sem á Stykkishólmi og Seyðisfirði en þar hefur Stiller verið tíður gestur undanfarið. Gamanleikarinn hefur verið iðinn að dásama land og þjóð á Twitter-síðu sinni.

Hann hefur kafað í Silfru, líkt og kollegi hans Tom Cruise gerði sumar, og varð óvart áhorfandi í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir rúmri viku. Stiller virðist þeysast á milli landshluta á þyrlu en hann ku hafa komið sér fyrir í tveggja hæða íbúð í Skuggahverfinu. Ekki er vitað hvort eiginkona hans, leikkonan Christine Taylor, og börn þeirra tvö muni sækja landið heim á meðan á tökum stendur. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×