Lífið

Skræpóttasta sýning sem sést hefur

„Þetta er skræpóttasta sýning sem ég hef séð og ekkert smá skemmtilegt verkefni," segir Halla Sólveig Þorgeirsdóttir, teiknari og einn af skipuleggjendum sýningarinnar Phobophobia sem er í gangi í Bíó Paradís um þessa dagana.

34 íslenskir teiknarar tóku sig saman og slógu upp sýningunni, sem er myndræn framsetning undir þemanu Phobia. „Allir teiknararnir á bakvið sýninguna starfa sem teiknarar og hafa verið að myndskreyta barnabækur, auglýsingar, umbúðir og ég veit ekki hvað," segir Halla.

Hver teiknari valdi sér eina phobiu eða hræðslu til að túlka í verki sínu, og segir Halla vera allan gang á því hvort um alvarlegar eða fyndnar myndir sé að ræða en sýningin bjóði upp á allan skalann. „Það er gaman að sjá hvað verkin eru ólík og gaman að gefa teiknurum, sem yfirleitt vinna með kúnna eða textahöfundi, tækifæri til að vinna þetta verkefni algjörlega frá eigin brjósti," segir Halla.

Sýningarskráin er líka hluti af sýningunni, því hver teiknari teiknaði einn líkamspart í tengslum við sína phobiu á spjöldin, sem gestir eru hvattir til að taka með sér heim, klippa út og búa til hræðilegt skrímsli. Hægt er að senda inn myndir af sínum skrímslum og vinnur sigurvegarinn áritað eftirprent úr sýningunni, að eigin vali.

Um er að ræða 34 verk, eitt frá hverjum teiknara, og eru öll verkin til sölu á heimasíðunni muses.is, Félag íslenskra teiknara styrkir sýninguna sem er hluti af HönnunarMars og er opin til 30.mars. -trs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×