Védís Vandíta Guðmundsdóttir, tónlistarkennari og meðlimur í hljómsveitinni Galaxies, er stofnandi og stjórnarmeðlimur nýstofnaðs Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja. Fyrsti fundur félagsins fór fram í byrjun vikunnar og fór aðsóknin fram úr björtustu vonum.
Védís segir stjörnuskoðun vera hennar helsta áhugamál fyrir utan tónlistina. Ákveðið var að stofna stjörnuskoðunarfélag í Vestmannaeyjum eftir að nokkrir áhugamenn komu sér saman um að byggja upp áhugann á faginu í bænum. Alls mættu um þrjátíu einstaklingar á fyrsta fund félagsins á þriðjudag sem lýsir miklum áhuga Vestmannaeyinga á stjörnuskoðun.
„Ég hef haft mikinn áhuga á þessu allt frá því ég var barn, þetta lá þó í svolitlum dvala á meðan tónlistin átti hug minn allan, en hefur nú blossað aftur upp. Ég á tvo stjörnukíkja sem ég nota mikið á veturna þegar maður er nógu heppinn að fá stjörnubjört kvöld," upplýsir Védís sem hyggur jafnvel á nám í greininni í nánustu framtíð.
Hún segir stjörnuskoðun vera hollt áhugamál og fylgist sjálf spennt með uppgötvunum Keplerssjónaukans.
„Stjörnuskoðun gerir mér gott því þá átta ég mig á því hvað lítilsháttar vandamál eru í raun agnarsmá miðað við stærra samhengi. Þetta er líka bara gaman og fyrir mína parta varð ekki aftur snúið þegar ég var á annað borð byrjuð. Ég fylgist núna spennt með Keplerssjónaukanum og bíð bara eftir því að hann finni plánetu með öðru lífkerfi."
Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja heldur mánaðarlega fundi og stefnir einnig á samvinnu við grunn- og framhaldsskólann í bænum. „Okkur langar að byggja þetta upp af krafti," segir Védís að lokum. - sm
