Lífið

Spilar í Pompidou-listasafninu

Jarþrúður Karlsdóttir í myndinni Sweet Viking. Hún spilar í franska listasafninu Pompidou á laugardaginn.
Jarþrúður Karlsdóttir í myndinni Sweet Viking. Hún spilar í franska listasafninu Pompidou á laugardaginn.
„Það verður mjög spennandi að spila þarna,“ segir tónlistarkonan Jarþrúður Karlsdóttir, Jara, sem hefur verið boðið að spila í Pompidou, nýlistasafni Frakklands og einu virtasta listasafni heims. „Þetta er mikill heiður. Það er ekkert auðvelt að komast þarna inn.“

Henni var boðið að halda tónleikana í tilefni af frumsýningu heimildarmyndarinnar Sweet Viking eftir marokkósku kvikmyndagerðarkonuna Salma Cheddadi sem fjallar um Jöru og var tekin á 16mm filmu á Íslandi síðasta sumar. Myndin er 30 mínútna löng og fylgir Jöru á ferðalagi um landið þar sem hún veitir áhorfandanum innsýn í líf sitt og sögu eyjarinnar.

Sweet Viking verður frumsýnd á laugardaginn á hátíðinni Hors Pistes 2012 sem Pompidou stendur fyrir og tónleikarnir verða strax að sýningu lokinni. Aðspurð segist Jara hafa hitt Sölmu Sheddadi í áramótapartíi í París. „Hún hafði samband nokkrum mánuðum seinna og vildi gera mynd um mig. Það var mjög óvænt,“ segir Jara, sem var strax klár í bátana. „Ég er alltaf til í að gera eitthvað skemmtilegt og þetta hljómaði skemmtilega.“

Jara, sem flýgur til Parísar í dag, er búin að sjá myndina og er ánægð með útkomuna. „Hún lítur rosalega vel út. Það er mjög skrítið að horfa á sjálfa sig í mynd en fyrir utan það er þetta bara skemmtilegt.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.