Á frímiða inn í nýja árið Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar 18. janúar 2012 11:00 Jólatréð stendur enn í stofunni hjá mér þó að komið sé fram yfir miðjan janúar. Skrautlaust reyndar. Ég hef ekki komið því í verk að þvælast með það í Sorpu enda tréð rétt um tveir metrar á hæð og mikið um sig. Ég mikla fyrir mér að troðast með það niður stigaganginn og hvað þá að fóta mig með það í hálkunni á útitröppunum. Hef heldur ekki leyst þá gestaþraut að koma því inn í fjölskyldubílinn, svo í stofunni stendur það enn eins og plássfrek pottaplanta. Þetta er sem betur fer barrheldin tegund. Stofugólfið hefur því ekki breyst í villtan skógarbotn enn þá né hafa barrnálar stungist í iljarnar svo nokkru nemi. Mér skilst líka að vökvi ég tréð reglulega geti það haldið barri langt fram á vor, jafnvel vaxið um nokkra sentimetra í hlýrri stofunni hjá mér! Það truflar mig því ekkert að ráði enn þá þar sem það trónir, þó það skyggi á útsýnið frá hornglugganum. Með nýju ári ganga oft breyttir tímar í garð og fyrir marga er það léttir að taka niður jólaskrautið. Ganga frá jólunum ofan í geymslu og afmá merki undanfarinna vikna af heimilinu. Hreinsa til, taka á móti nýju ári og hækkandi sól með hreint borð, strengd heit og stóra drauma. Meðan jólatréð stendur enn í stofunni er einhvern veginn ekki búið að opna dyrnar inn í nýja árið. Þó að smákökudunkar hafi tæmst og matseðill vikunnar fallinn í hversdagslegt horf standa lausir endar út af borðinu. Áramótaheitin hafa ekki tekið gildi og maður leyfir sér að mara í hálfu kafi, í einhvers konar millibilsástandi. Stingur sér enn undir teppi eftir kvöldmatinn eins og á jólunum, í stað þess að brjóta saman þvottinn. Einhverjir gætu kallað það veruleikaflótta að slá nýja árinu svona á frest. Ég tek ekki svo djúpt í árinni, ekki svona um miðjan janúar. Kann ágætlega við óbreytt ástand og er farin að líta á jólatréð sem „bandamann" minn í þessu tilbúna millibilsástandi, einhvers konar frímiða inn í nýja árið. Meðan það heldur barri er ég stikkfrí. Ég laumast því til að vökva það af og til. Sópa saman barrnálunum sem þó hafa dottið og snyrti svolítið í kring. Undarleg garðvinna, sem ég veit auðvitað að mun taka enda. Þegar ég þykist tilbúin í slaginn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ragnheiður Tryggvadóttir Mest lesið Teppaleggjum ekki íslenska náttúru með vindorku Halla Hrund Logadóttir Skoðun Halldór 23.11.2024 Halldór Miskunnsami nýmarxistinn Kári Allansson Skoðun Furðuleg réttlæting á hækkun verðtryggðra vaxta Marinó G. Njálsson Skoðun Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun Kosningaloforðið sem gleymdist? Þorsteinn Siglaugsson Skoðun Vaxtahækkanir og brotið traust - hver ber ábyrgð? Sandra B. Franks Skoðun Raforka er ekki eina orkan! Dagur Helgason Skoðun Kjósum á næsta kjörtímabili Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Hefur sálfræðileg meðferð áhrif á líkamlegt heilbrigði? Rúnar Helgi Andrason Skoðun
Jólatréð stendur enn í stofunni hjá mér þó að komið sé fram yfir miðjan janúar. Skrautlaust reyndar. Ég hef ekki komið því í verk að þvælast með það í Sorpu enda tréð rétt um tveir metrar á hæð og mikið um sig. Ég mikla fyrir mér að troðast með það niður stigaganginn og hvað þá að fóta mig með það í hálkunni á útitröppunum. Hef heldur ekki leyst þá gestaþraut að koma því inn í fjölskyldubílinn, svo í stofunni stendur það enn eins og plássfrek pottaplanta. Þetta er sem betur fer barrheldin tegund. Stofugólfið hefur því ekki breyst í villtan skógarbotn enn þá né hafa barrnálar stungist í iljarnar svo nokkru nemi. Mér skilst líka að vökvi ég tréð reglulega geti það haldið barri langt fram á vor, jafnvel vaxið um nokkra sentimetra í hlýrri stofunni hjá mér! Það truflar mig því ekkert að ráði enn þá þar sem það trónir, þó það skyggi á útsýnið frá hornglugganum. Með nýju ári ganga oft breyttir tímar í garð og fyrir marga er það léttir að taka niður jólaskrautið. Ganga frá jólunum ofan í geymslu og afmá merki undanfarinna vikna af heimilinu. Hreinsa til, taka á móti nýju ári og hækkandi sól með hreint borð, strengd heit og stóra drauma. Meðan jólatréð stendur enn í stofunni er einhvern veginn ekki búið að opna dyrnar inn í nýja árið. Þó að smákökudunkar hafi tæmst og matseðill vikunnar fallinn í hversdagslegt horf standa lausir endar út af borðinu. Áramótaheitin hafa ekki tekið gildi og maður leyfir sér að mara í hálfu kafi, í einhvers konar millibilsástandi. Stingur sér enn undir teppi eftir kvöldmatinn eins og á jólunum, í stað þess að brjóta saman þvottinn. Einhverjir gætu kallað það veruleikaflótta að slá nýja árinu svona á frest. Ég tek ekki svo djúpt í árinni, ekki svona um miðjan janúar. Kann ágætlega við óbreytt ástand og er farin að líta á jólatréð sem „bandamann" minn í þessu tilbúna millibilsástandi, einhvers konar frímiða inn í nýja árið. Meðan það heldur barri er ég stikkfrí. Ég laumast því til að vökva það af og til. Sópa saman barrnálunum sem þó hafa dottið og snyrti svolítið í kring. Undarleg garðvinna, sem ég veit auðvitað að mun taka enda. Þegar ég þykist tilbúin í slaginn.
Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun
Ísland og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarðhita og alþjóðlegt samstarf Ester Halldórsdóttir Skoðun