Enn af hlerunum Ólafur Þ. Stephensen skrifar 14. janúar 2012 06:00 Enn hefur athyglin beinzt að símahlerunum lögreglunnar, eftir að Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að tugum manna, sem höfðu stöðu grunaðra í rannsóknum embættis sérstaks saksóknara á bankahruninu, hefði á síðustu vikum verið greint bréflega frá því að símar þeirra hefðu verið hleraðir. Í sumum tilfellum leið hálft annað ár frá því að heimild fékkst til hlerana og þar til viðkomandi var tilkynnt um hlerunina. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði Fréttablaðinu að nú sæi til lands í rannsóknum ýmissa mála og því væri ekki talin ástæða til að beita hlerunum lengur; þess vegna hefðu margar tilkynningar verið sendar að undanförnu. Þetta kann að vera rétt, en sennilega spilar þó líka inn í að stutt er síðan embætti ríkissaksóknara tók sig saman í andlitinu og hóf virkt eftirlit, sem það á lögum samkvæmt að hafa með símahlerunum lögreglunnar. Það gerðist þó ekki fyrr en að undangenginni harðri gagnrýni, meðal annars frá Róbert Spanó, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, í greinum hér í blaðinu. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra brást við með því að vekja athygli ríkissaksóknara á málinu. Ýmislegt bendir til að hleranir sérstaks saksóknara séu í sumum tilvikum á gráu svæði. Þannig gagnrýndi Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari sem nú gætir hagsmuna einstaklings sem er til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, rannsóknaraðferðir embættisins í Fréttablaðinu í gær. Hann benti á mál manns, sem var kallaður til yfirheyrslu sem vitni í máli og sími hans var síðan hleraður í kjölfarið. Upptökur af símtölum hans við nánustu fjölskyldu hefðu síðan verið spilaðar fyrir þriðja aðila. Sigurður G. Guðjónsson, sem einnig gætir hagsmuna grunaðra manna, gagnrýndi hér í blaðinu í fyrradag að símahlerunum væri beitt í málum, þar sem erfitt væri að sjá að meira en átta ára fangelsisrefsing lægi við meintum brotum eða að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust, eins og lög gera ráð fyrir. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hyggist herða eftirlit sitt með hlerunum lögreglu og setja verklagsreglur um að tilkynnt sé um hlerunina innan tiltekinna tímamarka, ella grípi saksóknari inn í og geri það. Það bendir eindregið til að eftirlitinu hafi til þessa verið ábótavant. Símahleranir geta verið mikilvægt rannsóknarúrræði fyrir lögregluna. Það er sjálfsagt og eðlilegt að lögreglan geti gripið til slíks úrræðis, en um leið er það mikið og alvarlegt inngrip í einkalíf fólks og þess vegna ber að beita því af ýtrustu varúð. Ýmislegt bendir til að því hafi verið beitt of frjálslega; að bæði hafi dómstólar túlkað heimildir til hlerunar of vítt og að eftirlitinu með framkvæmdinni hafi verið ábótavant. Það er jákvætt ef nú á að ráða bót á því. Rannsókn á efnahagsbrotum í aðdraganda bankahrunsins er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt verkefni. Það réttlætir þó ekki að reglum réttarríkisins sé vikið til hliðar, í þessu efni eða öðrum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Hinsegináætlun stjórnvalda – pólitísk hugmyndafræði í stað staðreynda Eldur Smári Kristinsson Skoðun Heimalestur – gæðastund en ekki grátur og gnístan tanna Svava Þ. Hjaltalín Skoðun Móðir í Breiðholti hjólar 5.000 kílómetra Sara Björg Sigurðardóttir Skoðun Frelsi til sölu Erling Kári Freysson Skoðun Heimur á heljarþröm? Innflutningur á hatursorðræðu til Íslands! Arna Magnea Danks Skoðun Eru Íslendingar feigir? Olíuvinnsla! Sigurður Loftur Thorlacius Skoðun Hróplegt óréttlæti í lífeyrismálum Finnbjörn A. Hermansson Skoðun Vangaveltur um íslenskt barnaefni – Hvers vegna skiptir það máli að börn heyri sjálf sig? Tinna Björg Kristinsdóttir,Valdimar Gylfason Skoðun Sterkara framhaldsskólakerfi Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Ástæðan fyrir því að við þurfum möguleika á dánaraðstoð Ingrid Kuhlman Skoðun
Enn hefur athyglin beinzt að símahlerunum lögreglunnar, eftir að Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að tugum manna, sem höfðu stöðu grunaðra í rannsóknum embættis sérstaks saksóknara á bankahruninu, hefði á síðustu vikum verið greint bréflega frá því að símar þeirra hefðu verið hleraðir. Í sumum tilfellum leið hálft annað ár frá því að heimild fékkst til hlerana og þar til viðkomandi var tilkynnt um hlerunina. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði Fréttablaðinu að nú sæi til lands í rannsóknum ýmissa mála og því væri ekki talin ástæða til að beita hlerunum lengur; þess vegna hefðu margar tilkynningar verið sendar að undanförnu. Þetta kann að vera rétt, en sennilega spilar þó líka inn í að stutt er síðan embætti ríkissaksóknara tók sig saman í andlitinu og hóf virkt eftirlit, sem það á lögum samkvæmt að hafa með símahlerunum lögreglunnar. Það gerðist þó ekki fyrr en að undangenginni harðri gagnrýni, meðal annars frá Róbert Spanó, forseta lagadeildar Háskóla Íslands, og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, í greinum hér í blaðinu. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra brást við með því að vekja athygli ríkissaksóknara á málinu. Ýmislegt bendir til að hleranir sérstaks saksóknara séu í sumum tilvikum á gráu svæði. Þannig gagnrýndi Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari sem nú gætir hagsmuna einstaklings sem er til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara, rannsóknaraðferðir embættisins í Fréttablaðinu í gær. Hann benti á mál manns, sem var kallaður til yfirheyrslu sem vitni í máli og sími hans var síðan hleraður í kjölfarið. Upptökur af símtölum hans við nánustu fjölskyldu hefðu síðan verið spilaðar fyrir þriðja aðila. Sigurður G. Guðjónsson, sem einnig gætir hagsmuna grunaðra manna, gagnrýndi hér í blaðinu í fyrradag að símahlerunum væri beitt í málum, þar sem erfitt væri að sjá að meira en átta ára fangelsisrefsing lægi við meintum brotum eða að ríkir almanna- eða einkahagsmunir krefðust, eins og lög gera ráð fyrir. Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari hyggist herða eftirlit sitt með hlerunum lögreglu og setja verklagsreglur um að tilkynnt sé um hlerunina innan tiltekinna tímamarka, ella grípi saksóknari inn í og geri það. Það bendir eindregið til að eftirlitinu hafi til þessa verið ábótavant. Símahleranir geta verið mikilvægt rannsóknarúrræði fyrir lögregluna. Það er sjálfsagt og eðlilegt að lögreglan geti gripið til slíks úrræðis, en um leið er það mikið og alvarlegt inngrip í einkalíf fólks og þess vegna ber að beita því af ýtrustu varúð. Ýmislegt bendir til að því hafi verið beitt of frjálslega; að bæði hafi dómstólar túlkað heimildir til hlerunar of vítt og að eftirlitinu með framkvæmdinni hafi verið ábótavant. Það er jákvætt ef nú á að ráða bót á því. Rannsókn á efnahagsbrotum í aðdraganda bankahrunsins er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt verkefni. Það réttlætir þó ekki að reglum réttarríkisins sé vikið til hliðar, í þessu efni eða öðrum.
Hinsegináætlun stjórnvalda – pólitísk hugmyndafræði í stað staðreynda Eldur Smári Kristinsson Skoðun
Vangaveltur um íslenskt barnaefni – Hvers vegna skiptir það máli að börn heyri sjálf sig? Tinna Björg Kristinsdóttir,Valdimar Gylfason Skoðun
Hinsegináætlun stjórnvalda – pólitísk hugmyndafræði í stað staðreynda Eldur Smári Kristinsson Skoðun
Vangaveltur um íslenskt barnaefni – Hvers vegna skiptir það máli að börn heyri sjálf sig? Tinna Björg Kristinsdóttir,Valdimar Gylfason Skoðun