Viðskipti erlent

Þekkt vínrækt hættir við haustuppskeru vegna votviðris

Einn þekktasta vínrækt Englands, Nyetimber, hefur ákveðið að taka haustuppskeru sína ekki í hús í ár sökum þess hve berin eru léleg að gæðum eftir mjög votviðrasamt sumar.

Ljóst er að vínræktin verður fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna þessa en Cherie Spriggs víngerðarmaður hjá Nyetimber segir í samtali við BBC að það sé mikilvægt fyrir vínræktina að slaka hvergi á gæðakröfum sínum þegar kemur að vínframleiðslunni. Ákvörðunin um að hirða ekki uppskeruna í haust hafi verið mjög erfið en nauðsynleg fyrir orðspor Nyetimber.

Víngarðar Nyetimber eru staðsettir í West Sussex en þessi vínrækt framleiðir einkum freyðivín sem þykja álíka góð og frönsk kampavín enda er moldin í görðum vínræktarinnar mjög lík jarðfræðilega og sú mold sem finnst í kampavínshéruðum Frakklands.

Nyetimber hefur hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir vín sín. Þar á meðal hefur þessi vínrækt í þrígang hlotið verðlaun fyrir besta freyðivínið í heiminum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×