Viðskipti erlent

Fjárfestar ánægðir með yfirlýsingu Seðlabanka Evrópu

Magnús Halldórsson skrifar
Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu.
Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu.
Hlutabréfavísitölur hækkuðu víðast hvar á alþjóðamörkuðum í dag, og eru hækkanirnar raktar til yfirlýsinga Mario Draghi, seðlabankastjóra Evrópu, þess efnis að bankinn muni grípa til þess að kaupa skuldabréf af skuldugum ríkjum Evrópu til þess að halda lántökukostnaði niðri. Fjárfestar tóku þessum yfirlýsingum vel.

DAX vísitalan þýska hækkaði um 2,91 prósent og FTSE 100 vísitalan í Bretlandi um 2,11 prósent. Þá hækkaði Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum um 2,17 prósent og S&P 500 vísitalan um 2,04 prósent.

Einkum er horft til þess að Seðlabanki Evrópu kaupi skammtímaskuldabréf ríkssjóða Ítalíu og Spánar, til þess að halda lántökukostnaði þjóðanna niðri, að því er fram kemur í frétt Wall Street Journal.

Vaxtaálag á 10 ára ríkisskuldabréf Spánar nam 5,96 prósentum á markaði í dag og álag á 10 ára ríkisskuldabréf Ítalíu 5,24 prósentum, en álagið lækkaði umtalsvert eftir yfirlýsingu Seðlabanka Evrópu um að bankinn myndi koma skuldugum þjóðum til hjálpar með miklum lánveitingum ef þær þurfa á því að halda. Álagið þarf að lækka umtalsvert til viðbótar, helst niður fyrir 2,5 prósent, svo það verði ákjósanlegt að endurfjármagna skuldir á markaði.

Sjá má umfjöllun Wall Street Journal hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×