Viðskipti erlent

Slagurinn harðnar - Apple krefst lögbanns á Samsung síma

Magnús Halldórsson skrifar
Fjarskipta- og hugbúnaðarrisinn Apple hefur krafist lögbanns á sölu á Samsung símum, en krafan var lögð fram í Kaliforníu, þar sem höfuðstöðvar Apple eru, seinni partinn í gær. Krafan byggir á niðurstöðu dómstóla í Bandaríkjunum um að Samsung hafi brotið gegn Apple með því að nýta sér höfundarréttarvarinn hugbúnað fyrirtækisins. Var Samsung gert að greiða einn milljarða dala, jafnvirði um 120 milljarða króna, í sekt vegna málsins.

Lögbannskrafan nær til sölu á átta tegundum síma, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá. Tegundirnar átta eru Galaxy S 4G, Galaxy S2 AT&T model, Galaxy S2 Skyrocket, Galaxy S2 T-Mobile model, Galaxy S2 Epic 4G, Galaxy S Showcase, Droid Charge og Galaxy Prevail. Símarnir eru allir á meðal vinsælustu vörutegunda Samsung.

Hlutabréf í Apple hækkuðu um 1,88 prósent í gær á meðan hlutabréf í Samsung, sem er með höfuðstöðvar í Suður-Kóreu, lækkuðu um sjö prósent, en þessar gengissveiflur eru raktar til harðrar baráttu fyrirtækjanna á markaði.

Forsvarsmenn Samsung segjast ætla að verja ímynd fyrirtækisins og ætla sér að áfrýja niðurstöðu dómstóla í Bandaríkjunum, sem þeir telja óréttláta. Þá sögðu þeir, í minnisblaði til starfsmanna, vonast til þess að markaðurinn og neytendur standi með vörum fyrirtækisins, líkt og hingað til.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×