Fótbolti

Casillas setti nýtt met í kvöld - enginn unnið fleiri landsleiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas
Iker Casillas Mynd/AFP
Iker Casillas, fyrirliði Real Madrid og spænska landsliðsins, setti nýtt met í kvöld þegar Spánn vann 4-1 sigur á Suður-Kóreu í vináttulandsleik sem fór fram í Bern í Sviss. Casillas kom inn á sem varamaður í hálfleik og fékk ekki á sig mark þær 45 mínútur sem hann spilaði.

Casillas var að spila sinn 130. landsleik og var þarna í 95. sinn í sigurliði. Hann bætti þar með met Frakkans Lilian Thuram og Egyptans Ahmed Hassan sem höfðu báðir unnið 94 leiki með landsliðum sínum. Casillas var ennfremur að halda hreinu í 74. sinn í landsleik.

Casillas er aðeins 31 árs gamall og á eftir að spila mörg góð ár í viðbót með spænska landsliðinu. Hann gæti vel náð hundraðasta sigurleiknum á EM í sumar.

Fernando Torres skoraði fyrsta mark Spánverja í kvöld en hin mörkin skoruðu þeir Xabi Alonso (víti), Santi Cazorla og Alvaro Negredo. Kim Do-Heon jafnaði metin skömmu fyrir hlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×