Viðskipti erlent

Rauðar tölur lækkunar á mörkuðum

Hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum opnuðu með rauðum tölum lækkunar í dag en áhyggjur fjárfesta vegna pólitískrar óvissu í Suður-Evrópu, þar helst Grikklandi, hafa farið vaxandi undanfarin misseri. Þannig lækkaði Nasdaq-vísitalan í Bandaríkjunum um 0,53 prósent strax við opnun, og var lækkunin öðru fremur rakin til svartsýni á stöðu mála á mörkuðum í Evrópu.

Inu Drew, framkvæmdastjóra fjárfestinga hjá JP Morgan Chase, var sagt upp í dag og hafði það einnig nokkur áhrif á mörkuðum, einkum á hlutafé í JP Morgan en strax við opnun lækkaði gengi bréfa bankans um tæplega tvö prósent. JP Morgan tilkynnti í síðustu viku um tap upp á tvo milljarða dali, eða sem nemur 250 milljörðum króna, vegna viðskipta bankans með bandarísk fyrirtækjaskuldabréf en bankinn veðjaði á að bandarískur efnahagur myndi rétta hraðar úr kútnum en raunin var.

Markaðsverð hlutabréfa hefur lækkað nokkuð í Evrópu í dag. Þannig hefur DAX vísitalan lækkað um tæplega tvö prósent líkt og FTSE 100 vísitalan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×