OB setti strik í meistarabaráttu Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld en þá gerðu liðin markalaust jafntefli. OB fékk að sama skapi dýrmætt stig í fallbaráttunni.
Rúrik Gíslason var í byrjunarliði OB en þurfti að fara af velli vegna meiðsla um miðbik fyrri hálfleiksins.
OB er nú fimm stigum frá fallsæti þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu og því í góðri stöðu.
Nordsjælland hefði komist á topp deildarinnar með sigri í kvöld en liðið er nú einu stigi á eftir FC Kaupmannahöfn, sem er á toppnum með 63 stig.
FCK á eftir að spila við Midtjylland og Silkeborg en Nordsjælland leikur gegn Bröndby og Horsens í lokaumferðunum.
OB getur tryggt sæti sitt í deildinni með jafntefli eða sigri gegn Lyngby í næstsíðustu umferðinni en síðarnefnda liðið er nú í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 25 stig, fimm stigum á eftir OB.
HB Köge er fallið úr deildinni en liðið er með átján stig á botninum.
