Viðskipti erlent

Áhlaup á gríska banka - 700 milljónir evra teknar út

Magnús Halldórsson skrifar
Frá Grikklandi.
Frá Grikklandi.
Almenningur í Grikklandi tók út 700 milljónir evra, rúmlega 114 milljarðar króna, af reikningum grískra banka í gær samkvæmt upplýsingum sem forseti Grikklands, Karolos Papoulias, lét þingmenn hafa í dag og vitnað er til á vef Wall Street Journal í dag. Papoulias talar um áhlaup á gríska banka í upplýsingunum sem Wall Street Journal vitnar til.

Þetta er mun meiri úttekt af reikningum enn í venjulega árferði og óttast menn að þessi þróun muni halda áfram út vikuna, að því er segir í frétt Wall Street Journal um málin. Samkvæmt upplýsingunum sem Wall Street Journal vitnar til, varar Papoulias stjórnmálamenn við því að alvarlegir atburðir kunni að vera framundan þegar kemur að efnahagslífi landsins.

Samkvæmt gögnum seðlabankans í Grikklandi voru heildarinnlán einstaklinga og fyrirtækja í Grikklandi um 165 milljarðar evra í mars sl., og því er þessi úttekt á einum degi sögð mikið áhyggjuefni. Á síðastliðnum tveimur mánuðum hafa tveir til þrír milljarðar evra farið útaf reikningum á mánaðarlega, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Óljóst er enn hver efnahagsleg framtíð Grikklands verður, en vaxandi líkur eru taldar á því að Grikkir muni yfirgefa evruna og taka upp drökmuna á nýjan leik. Allt er þó óljóst í þeim efnum enn sem komið er, og allt eins líklegt að samstaða náist um að fylgja eftir niðurskurðaráformum sem Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn unnu með stjórnvöldum í Grikklandi, með það að markmiði að rétta af rekstur gríska ríkisins á löngum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×