Fótbolti

Guardiola segir framtíð sína óráðna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
nordic photos / getty images
Pep Guardiola var eðlilega niðurlútur eftir að hans menn í Barcelona féllu úr leik í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Barcelona missti 2-0 forystu gegn Chelsea í 2-2 jafntefli þrátt fyrir að Chelsea var manni færri eftir að John Terry var rekinn af velli. Chelsea vann undanúrslitarimmu liðanna því samanlagt, 3-2.

Guardiola hefur náð ótrúlegum árangri með Barcelona en er nú úr leik í Meistaradeildinni auk þess sem líkurnar á að liðið vinni spænska meistaratitilinn í vor eru afar litlar.

Samningur hans við félagið rennur út í sumar. „Framtíðin? Ég mun taka ákvörðun á næstu dögum. Ég mun ræða við forsetann og við munum ákveða hvað þjóni félaginu best," sagði hann.

Hann var ekki ánægður með niðurstöðu kvöldsins. „Ég er afar leiður. Mér fannst við spila sérlega vel og við gerðum allt sem við gátum til að komast í úrslitaleikinn. Úrslitaleikir eru frábærir en við verðum að horfa á þennan í sjónvarpinu."

„Við höfum spilað vel að undanförnu en það hefur ekki reynst nóg. Stundum er fótboltinn svona. Þetta var ekki árið okkar - okkur virtist einfaldlega fyrirmunað að vinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×