Fótbolti

Beckenbauer: Robben hefði ekki átt að taka vítið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Dortmund vann í gær afar mikilvægan sigur á Bayern München, 1-0, í uppgjöri toppliðanna í þýsku úrvalsdeildinni. Arjen Robben fékk tækifæri til að skora í leiknum en lét verja frá sér vítaspyrnu.

Dortmund komst yfir þegar um sjö mínútur voru til leiksloka en stuttu síðar braut markvörður liðsins, Roman Weidenfeller, á Robben í teignum. Vítaspyrna var dæmd og ákvað Robben að taka spyrnuna sjálfur.

„Robben hefði aldrei tekið þessa vítaspyrnu ef ég hefði verið þjálfari liðsins," sagði Beckenbauer eftir leikinn. Hann er nátengdur félaginu en var á sínum tíma leikmaður, þjálfari og forseti þess.

„Það eru óskrifuð regla í fótbolta sem segir að sá sem fiskar vítið á ekki að taka það sjálfur. Kannski er búið að breyta reglunni eða menn vita ekki af henni í Hollandi."

Sjálfur sagði Robben eftir leikinn að Dortmund hefði með sigrinum nánast tryggt sér titilinn. Hann var svekktur að hafa ekki nýtt vítaspyrnuna. „Sérstaklega þar sem ég var búinn að skora úr síðustu 10-11 vítaspyrnum mínum," sagði hann.

Bayern er í öðru sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og nú sex stigum á eftir toppliði Dortmund. Fjórir leikir eru eftir af tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×