Eric Abidal, varnamaður Evrópu og Spánarmeistaraliðs Barcelona, mun á allra næstu dögum fara í viðamikla aðgerð þar sem ný lifur verður grædd í hann. Franski landsliðsmaðurinn greindist með krabbamein í lifur í mars á síðasta ári og var æxli fjarlægt með skurðaðgerð.
Abidal hefur verið í miklu eftirliti hjá læknum Barcelona á síðustu 12 mánuðum. Í yfirlýsingu sem er að finna á vef félagsins segir ekki verði komist hjá því að leikmaðurinn fái lifur sem grætt verður í hann. Abidal hefur leikið 32 leiki á þessu tímabili með Barcelona.
