Fótbolti

Benfica komst yfir en tapaði fyrir Zenit í frostinu í Pétursborg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Fyrri leik dagsins í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar er lokið og það voru skoruð fimm mörk í frostinu í Pétursborg þegar heimamenn í Zenit St. Pétursborg unnu 3-2 sigur á Benfica. Aðstæður voru erfiðar í dag en frostið var yfir tíu gráður.

Yuri Zhevnov, markvörður Zenit St. Pétursborg, fékk á sig tvö klaufamörk í þessum leik en gat þakkað liðsfélögunum sínum fyrir að skora þrjú. Roman Shirokov skoraði tvö mörk þar á meðal sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok. Mörk Benfica gætu engu að síður reynst liðinu vel í síðari leiknum í Portúgal.

Benfica komst yfir á 20. mínútu leiksins þegar Maxi Pereira fylgdi vel á eftir þegar Yuri Zhevnov varði aukaspyrnu frá Óscar Cardozo.

Það tók Rússana aðeins sjö mínútur að jafna en það mark skoraði Roman Shirokov með hnitmiðaðu skoti utan úr teignum eftir fyrirgjöf frá Tomas Hubocan.

Varamennirnir Sergey Semak og Vladimir Bystrov unnu svo vel saman á 71. mínútu og Semak kom Zenit í 2-1 eftir stoðsendingu Bystrov en Bystrov var aðeins búinn að vera inn á í fimm mínútur.

Óscar Cardozo náði síðan að jafna þremur mínútum fyrir leikslok þegar Yuri Zhevnov, markvörður Zenit, missti aftur frá sér boltann og boltinn fór af Cardozo og í netið.

Zenit-menn lögðu ekki árar í bát því þeir komust aftur yfir mínútu síðar þegar Roman Shirokov slapp í gegn, lék á markvörðinn og skoraði í tómt markið. Það reyndist vera sigurmarkið í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×