Viðskipti erlent

Olía við Falklandseyjar yfir 100 milljarða punda virði

Nýjar upplýsingar benda til að olíusvæðið undan ströndum Falklandseyja gæti gefið af sér yfir 100 milljarða punda, eða hátt í 20.000 milljarða króna næstu 20 árin ef allt fer að óskum.

Þar af myndu Falklandseyjabúar fá um 20 milljarða punda, eða nær 4.000 milljarða króna í sinn hlut í formi skatta og hagnaðar af olíuvinnslunni. Þetta samsvarar um milljarði króna á hvern eyjabúa.

Í frétt um málið á Reuters segir að þessar upplýsingar muni að öllum líkindum auka enn frekar á spennuna sem er milli Argentínu og Bretlandseyja vegna deilna um eyjarnar.

Svæðið sem hér um ræðir heitir Sea Lion en fjórar borholur hafa gefið jákvæðar niðurstöður á svæðinu og talið er að þar megi vinna allt að 8 milljarða tunna af olíu.

Spennan vegna Falklandseyja hefur farið stigvaxandi að undanförnu. Bretar hafa sent eitt öflugasta og fullkomnasta herskip sitt, tundurspillinn HMS Dauntless, til eyjanna og Vilhjálmur Bretaprins gegnir þar herþjónustu í augnablikinu. Á móti hefur Argentína kvartað til Sameinuðu þjóðanna vegna hervæðingar Breta við eyjarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×