Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varar við að óviðeigandi niðurskurður ríkisfjármála geti kæft vaxtamöguleika hagkerfa. Aðlaga þurfi niðurskurðaráætlanir við hvert hagkerfi fyrir sig.
Christine Lagarde framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varar við að of mikill niðurskurður í ríkisfjármálum geti orðið til þess að hagkerfi skuldsettra landa hætti að vaxa. Þetta er meðal umræðuefna á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss.
Hún segir að skuldsettar þjóðir þurfi vissulega að skera niður en ekki megi fara eins að því í öllum löndum, finna þurfi réttu lausnina fyrir hvert og eitt ríki þannig að ekki sé gengið of nærri hagkerfunum. Hún segir að evrópulönd séu að vinna í sínum skuldavanda og árangur sé farinn að koma í ljós.
Á ráðstefnunni ræddi fjármálaráðherra Bandaríkjanna Timothy Geithner einnig um að aukinn meinlætalifnaður í ríkisfjármálum geti orðið til þess að auka á hnignun hagkerfisins og þar með skapað vítahring samdráttar og niðurskurðar.
Fyrir mörg Evrópulönd sé hins vegar enginn annar möguleiki fyrir hendi en að skera verulega niður í ríkisfjármálum til lengri tíma litið.
