Spænska veikin í stofunni heima Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar 11. ágúst 2011 06:00 Einn daginn þegar afi minn vaknaði var hrím í loftinu fyrir ofan hann. Hlutir voru freðnir – inni hjá honum. Þetta var árið 1918: Frostaveturinn mikla. Sama ár veiktist amma mín af spænsku veikinni. „Stríðinu" var þá um það bil að ljúka (fyrri heimsstyrjöldina kallaði hún aldrei annað en „stríðið") og Katla nýbyrjuð að gjósa. Þetta var viðburðaríkt ár. Amma lifði spænsku veikina af en hún mundi alltaf endalausar hringingarnar í kirkjuklukkunum – jarðarfarir þeirra sem ekki höfðu það af. Amma var fædd árið 1897 í Suður-Þingeyjarsýslu. Í Reykjavík bjuggu þá einungis nokkur þúsund manns og barnadauði var hæstur á Íslandi í allri Evrópu. Amma lifði af kreppuna miklu og sá valdasjúka menn æsa hver annan upp í styrjöld á nýjan leik. Hún sá útvarp og sjónvarp koma fram á sjónarsviðið, upplifði að rafmagn væri lagt í hvert hús og húsin tengd saman með símalínum – hún sá hringveginn opnaðan og Reykjavík breytast í borg. Þegar hún bjó heima hjá mér á Akranesi seinustu æviár sín hafði hún upplifað svo margt að það var hálfskrýtið að hugsa til þess að það rúmaðist allt í einni mannsævi. „Ég er nú svo aldeilis hissa," sagði hún með vissu millibili. Þá hafði hún heyrt eitthvað sem kom henni reglulega á óvart. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hver viðbrögð hennar hefðu orðið við útblæstri bankanna, græðginni, sukkinu, skammsýninni og efnahagshruninu sem fylgdi. Hefði hún ekki orðið aldeilis hissa? Og hvernig hefði hún séð kreppu dagsins í dag miðað við kreppuna miklu? Stundum hef ég líka hugsað um það hvort hún amma mín hefði orðið aldeilis hissa yfir því hvað reynsluleysi var upphafið í góðærinu. Hvernig reynsla var jafnvel álitin til trafala – unga fólkið kunni, vissi og gat. Nema að síðan stóðu margir alveg á gati. Var ekki skeytingarleysið algjört gagnvart þeim sem byggt höfðu upp landið og safnað á langri ævi í reynslubankann? Hafði sagan líka ekki kennt okkur að allt sem fer upp kemur aftur niður – eða skipti sagan engu máli lengur? Það hefði verið gaman að ræða þetta við ömmu. Og ég veit að hún hefði laumað að mér einum, litlum Síríus-súkkulaðimola á meðan. Hún geymdi þá í fallegri skál. Amma mín var ekki af þeirri kynslóð sem gúffaði hömlulaust í sig sætindum – þeirri sem varð á endanum að skammta sér ákveðna nammidaga til að vera ekki stanslaust í sykursjokki. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sigríður Víðis Jónsdóttir Mest lesið Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hefur sala á rafbílum hrunið? Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Ég get horft í augun á ykkur og sagt Kristófer Már Maronsson Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun
Einn daginn þegar afi minn vaknaði var hrím í loftinu fyrir ofan hann. Hlutir voru freðnir – inni hjá honum. Þetta var árið 1918: Frostaveturinn mikla. Sama ár veiktist amma mín af spænsku veikinni. „Stríðinu" var þá um það bil að ljúka (fyrri heimsstyrjöldina kallaði hún aldrei annað en „stríðið") og Katla nýbyrjuð að gjósa. Þetta var viðburðaríkt ár. Amma lifði spænsku veikina af en hún mundi alltaf endalausar hringingarnar í kirkjuklukkunum – jarðarfarir þeirra sem ekki höfðu það af. Amma var fædd árið 1897 í Suður-Þingeyjarsýslu. Í Reykjavík bjuggu þá einungis nokkur þúsund manns og barnadauði var hæstur á Íslandi í allri Evrópu. Amma lifði af kreppuna miklu og sá valdasjúka menn æsa hver annan upp í styrjöld á nýjan leik. Hún sá útvarp og sjónvarp koma fram á sjónarsviðið, upplifði að rafmagn væri lagt í hvert hús og húsin tengd saman með símalínum – hún sá hringveginn opnaðan og Reykjavík breytast í borg. Þegar hún bjó heima hjá mér á Akranesi seinustu æviár sín hafði hún upplifað svo margt að það var hálfskrýtið að hugsa til þess að það rúmaðist allt í einni mannsævi. „Ég er nú svo aldeilis hissa," sagði hún með vissu millibili. Þá hafði hún heyrt eitthvað sem kom henni reglulega á óvart. Sjálf hef ég oft velt fyrir mér hver viðbrögð hennar hefðu orðið við útblæstri bankanna, græðginni, sukkinu, skammsýninni og efnahagshruninu sem fylgdi. Hefði hún ekki orðið aldeilis hissa? Og hvernig hefði hún séð kreppu dagsins í dag miðað við kreppuna miklu? Stundum hef ég líka hugsað um það hvort hún amma mín hefði orðið aldeilis hissa yfir því hvað reynsluleysi var upphafið í góðærinu. Hvernig reynsla var jafnvel álitin til trafala – unga fólkið kunni, vissi og gat. Nema að síðan stóðu margir alveg á gati. Var ekki skeytingarleysið algjört gagnvart þeim sem byggt höfðu upp landið og safnað á langri ævi í reynslubankann? Hafði sagan líka ekki kennt okkur að allt sem fer upp kemur aftur niður – eða skipti sagan engu máli lengur? Það hefði verið gaman að ræða þetta við ömmu. Og ég veit að hún hefði laumað að mér einum, litlum Síríus-súkkulaðimola á meðan. Hún geymdi þá í fallegri skál. Amma mín var ekki af þeirri kynslóð sem gúffaði hömlulaust í sig sætindum – þeirri sem varð á endanum að skammta sér ákveðna nammidaga til að vera ekki stanslaust í sykursjokki.