Viðskipti erlent

Matvæli eru 36% dýrari en í fyrra

Robert Zoellick bregst við spurningum blaðamanna í Washington í gær. NOrdicphotos/AFP
Robert Zoellick bregst við spurningum blaðamanna í Washington í gær. NOrdicphotos/AFP
Þrátt fyrir að það sjái til lands í kreppu fjármála- og efnahagslífs stendur heimurinn frammi fyrir nýjum áhættuþáttum og erfiðum breytingum, segir Robert Zoellick, forseti Alþjóðabankans.

Í opnunarræðu sinni á vorfundi bankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær benti Zoellick á hátt og sveiflukennt matvælaverð, hátt eldsneytisverð með hliðaráhrifum til hækkunar á matvælaverði, pólitískan óstöðugleika í Miðausturlöndum og Norður-Arfíku. Eins nefndi hann upplausnarástandið á Fílabeinsströndinni, endurteknar náttúruhamfarir, hækkandi verðbólgu í nýmarkaðsríkjum með hættu á ofhitnun og skuldavanda ríkja Evrópu.

Zoellick lagði sérstaka áherslu á þann vanda sem hækkandi matvælaverð ylli og sagði þjóðir heims verða að vera samstíga í að taka á þeim vanda, hvort sem það tæki hálft ár, heilt eða tvö.

„Matvælaverð er 36 prósentum yfir því sem var fyrir ári og stendur nærri sveiflunni árið 2008,“ benti Zoellick á og kvað 44 milljónir manna hafa orðið fátækt að bráð síðan í júní í fyrra. „Ef vísitala matvælaverðs hækkar um 10 prósent í viðbót teljum við að 10 milljónir manna til viðbótar verði sárri fátækt að bráð, en þá hefur fólk ekki nema 1,25 dali til að lifa af á dag,“ sagði Zoellick og fagnaði því sérstaklega að Frakkar geri matvæli að höfuðmálefni 20 helstu iðnríkja (G20) í formennskutíð sinni í þeim hópi.- óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×