Elítusjónarmiðin 7. apríl 2011 06:00 Því er gjarnan haldið fram í umræðum um Icesave-samninginn að það sé ósanngjarnt að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til. Þess vegna sé það prinsippmál að segja nei við samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag. Það er alveg rétt að lítil sanngirni er í því að almenningur skuli þurfa að taka á sig skuldbindingar vegna falls einkafyrirtækisins Landsbankans. En við höfum þegar axlað gífurlegar byrðar vegna falls hinna einkareknu banka. Í fréttaskýringu hér í blaðinu í gær voru bornar saman nokkrar stærðir. Samninganefnd Íslands telur að kostnaðurinn við Icesave-samninginn verði um 32 milljarðar. Hann gæti orðið minni, jafnvel enginn, og hann gæti orðið meiri. Endurfjármögnun hinna föllnu banka hefur hins vegar nú þegar kostað skattgreiðendur 210 milljarða króna. Endurfjármögnun Seðlabankans, til komin vegna gjaldþrots hans sem var afleiðing gífurlegra lánveitinga til bankanna gegn ótryggum veðum – sem rannsóknarnefnd Alþingis átaldi í skýrslu sinni – hefur kostað okkur 166 milljarða. Beinn kostnaður skattgreiðenda af bankahruninu er líklega um 468 milljarðar, fimmtánföld sú upphæð sem spáð er að Icesave-samningurinn kosti okkur. Að leggja þessar byrðar á skattgreiðendur getur seint talizt sanngjarnt en það hefur engu að síður verið talið nauðsynlegur þáttur í endurreisn fjármálakerfis og efnahagslífs landsins. Engin nei-hreyfing hefur orðið til gegn þessum skuldbindingum og engin víðtæk krafa um að þjóðin taki afstöðu til þeirra í almennri atkvæðagreiðslu. Með Icesave-samningnum næst friður við nágrannaríki okkar, greitt verður fyrir aðgangi Íslands að lánsfé og fjárfestingum og þar með áframhaldandi uppbyggingu. Er það prinsippmál að neita að standa við þann samning, af því að í Icesave-málinu var líka svínað á útlendingum, en ekki bara Íslendingum? Reikningurinn fyrir bankahrunið er tilkominn vegna athafna eigenda og stjórnenda bankanna en þó ekki þeirra einna. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að íslenzkir stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsstofnanir hefðu einnig brugðizt. Það átti við í Icesave-málinu eins og mörgum öðrum. Þannig var skortur á eftirliti með Landsbankanum vegna Icesave eitt af því sem rannsóknarnefndin tilgreindi sérstaklega sem vanrækslu bankastjóra Seðlabankans. Það var með öðrum orðum íslenzka viðskipta- og stjórnmálaelítan, sem brást hlutverki sínu og steypti þjóðinni í útgjöld og skuldir. Það tekur eiginlega út yfir allan þjófabálk þegar sumir af þeim sem þá héldu um valdataumana láta í það skína að annarleg sjónarmið "elítunnar“ í landinu liggi að baki málflutningi þeirra sem hvetja til að gengið verði frá litlu broti af reikningnum og bætt fyrir mistök þeirra sem klúðruðu íslenzka fjármálaundrinu svo herfilega. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Icesave Ólafur Stephensen Mest lesið Þolinmæði Hafnfirðinga er á þrotum! Kristín Thoroddsen Skoðun Það ber allt að sama brunni. – Mín kenning. Björn Ólafsson Skoðun Glæpamenn í glerhúsi Ólafur Stephensen Skoðun „Við lofum að gera þetta ekki aftur“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Erum við í ofbeldissambandi við ESB? Magnús Árni Skjöld Magnússon Skoðun Alvöru tækifæri í gervigreind Halldór Kári Sigurðarson Skoðun Hægagangur í samskiptum við bæjaryfirvöld Hilmar Freyr Gunnarsson Skoðun Gæludýraákvæðin eru gallagripur Árni Stefán Árnason Skoðun Það kostar að menga, þú sparar á að menga minna Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Hvað finnst Grindvíkingum? Jóhanna Lilja Birgisdóttir,Guðrún Pétursdóttir,Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir Skoðun
Því er gjarnan haldið fram í umræðum um Icesave-samninginn að það sé ósanngjarnt að skattgreiðendur þurfi að greiða skuldir sem einkaaðilar stofnuðu til. Þess vegna sé það prinsippmál að segja nei við samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardag. Það er alveg rétt að lítil sanngirni er í því að almenningur skuli þurfa að taka á sig skuldbindingar vegna falls einkafyrirtækisins Landsbankans. En við höfum þegar axlað gífurlegar byrðar vegna falls hinna einkareknu banka. Í fréttaskýringu hér í blaðinu í gær voru bornar saman nokkrar stærðir. Samninganefnd Íslands telur að kostnaðurinn við Icesave-samninginn verði um 32 milljarðar. Hann gæti orðið minni, jafnvel enginn, og hann gæti orðið meiri. Endurfjármögnun hinna föllnu banka hefur hins vegar nú þegar kostað skattgreiðendur 210 milljarða króna. Endurfjármögnun Seðlabankans, til komin vegna gjaldþrots hans sem var afleiðing gífurlegra lánveitinga til bankanna gegn ótryggum veðum – sem rannsóknarnefnd Alþingis átaldi í skýrslu sinni – hefur kostað okkur 166 milljarða. Beinn kostnaður skattgreiðenda af bankahruninu er líklega um 468 milljarðar, fimmtánföld sú upphæð sem spáð er að Icesave-samningurinn kosti okkur. Að leggja þessar byrðar á skattgreiðendur getur seint talizt sanngjarnt en það hefur engu að síður verið talið nauðsynlegur þáttur í endurreisn fjármálakerfis og efnahagslífs landsins. Engin nei-hreyfing hefur orðið til gegn þessum skuldbindingum og engin víðtæk krafa um að þjóðin taki afstöðu til þeirra í almennri atkvæðagreiðslu. Með Icesave-samningnum næst friður við nágrannaríki okkar, greitt verður fyrir aðgangi Íslands að lánsfé og fjárfestingum og þar með áframhaldandi uppbyggingu. Er það prinsippmál að neita að standa við þann samning, af því að í Icesave-málinu var líka svínað á útlendingum, en ekki bara Íslendingum? Reikningurinn fyrir bankahrunið er tilkominn vegna athafna eigenda og stjórnenda bankanna en þó ekki þeirra einna. Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að íslenzkir stjórnmálamenn, embættismenn og eftirlitsstofnanir hefðu einnig brugðizt. Það átti við í Icesave-málinu eins og mörgum öðrum. Þannig var skortur á eftirliti með Landsbankanum vegna Icesave eitt af því sem rannsóknarnefndin tilgreindi sérstaklega sem vanrækslu bankastjóra Seðlabankans. Það var með öðrum orðum íslenzka viðskipta- og stjórnmálaelítan, sem brást hlutverki sínu og steypti þjóðinni í útgjöld og skuldir. Það tekur eiginlega út yfir allan þjófabálk þegar sumir af þeim sem þá héldu um valdataumana láta í það skína að annarleg sjónarmið "elítunnar“ í landinu liggi að baki málflutningi þeirra sem hvetja til að gengið verði frá litlu broti af reikningnum og bætt fyrir mistök þeirra sem klúðruðu íslenzka fjármálaundrinu svo herfilega.
Hvað finnst Grindvíkingum? Jóhanna Lilja Birgisdóttir,Guðrún Pétursdóttir,Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir Skoðun
Hvað finnst Grindvíkingum? Jóhanna Lilja Birgisdóttir,Guðrún Pétursdóttir,Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir Skoðun