Börn og fullorðnir glöddust yfir því að aðventan er nú gengin í garð og skein gleðin úr hverju andliti á laugardaginn þegar kveikt var á ljósunum á jólatré Mosfellinga á Miðbæjartorgi.
Eins og meðfylgjandi myndir sýna var fjöldi saman kominn og voru jólalögin sungin háum rómi og dansað í kring um jólatréð.

Eftir hátíðarhöld úti á torgi færði mannfjöldinn sinn inn í hús í Kjarna þar sem áfram var glaðst.
Glaðbeittir jólasveinar gáfu börnum jólaepli og einnig voru Mjallhvít og dvergarnir sjö mættir á svæðið.

Kammerkór Mosfellsbæjar söng jólalög og hátíðarstemming myndaðist.
Ekki dró það úr hátíðarbragnum að vöffluilmurinn smaug um vitin enda stóð Kammerkórinn einnig fyrir sinni árlegu kaffisölu.