Hellas Verona vann í dag sinn áttunda sigur í röð í ítölsku B-deildinni og er liðið komið upp í annað sæti deildarinnar. Með sama áframhaldi hefur liðið, sem er nýliði í deildinni, blandað sér í baráttunna um sæti í ítölsku úrvalsdeildinni.
Hellas Verona vann í dag 1-0 sigur á Albionleffe en varamaðurinn austurríski Thomas Pichlmann skoraði eina mark leiksins tíu mínútum fyrir leikslok.
Emil Hallfreðsson spilaði sem fyrr allan leikinn í liði Hellas Verona en hann hefur spilað alla deildarleiki liðsins til þessa og er lykilmaður á miðjunni.
Torino er á toppi deildarinnar með 41 stig, fjórum meira en Hellas Verona auk þess sem fyrrnefnda liðið á leik til góða.

