Viðskipti erlent

Gullæði í uppsiglingu í Noregi

Gullæði er um það bil að skella á í Noregi eftir að mikið magn af gulli og öðrum dýrmætum málmum fannst í héraðinu Troms síðasta sumar.

Troms liggur nyrst í Noregi og það var flugvél útbúin sérstökum segulleitartækjum sem fann gullið í fjalllendinu þar. Fyrir utan verulegt magn af gulli fannst einnig töluvert af kopar, nikkel, zinki og hinu geislavirka efni thorium sem hugsanlega má nota í kjarnorkuverum í stað úrans.

Í umfjöllun norskra fjölmiðla kemur fram að námufélög standi nú í biðröðum fyrir utan norska stjórnarráðið eftir að fá leyfi til frekari leitar og vinnslu á þessum auðæfum í Troms. Áður var talið að verðmæti óunninna málma í jörðu í Noregi næmi um 1.400 milljörðum norskra króna eða hátt í 30.000 milljörðum króna. Þessi fundur í Troms er talin auka þau verðmæti verulega.

Trond Giske iðnaðarráðherra Noregs vill hefja námuvinnslu í Troms eins fljótt og hægt er. Morten Smelror forstjóri rannsókna hjá Jarðvísindastofu landsins segir hinsvegar að fyrst verði að kanna svæðið nánar og afla frekari upplýsinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×