Formúla 1

Kimi Raikkönen keppir aftur í Formúlu 1 2012

Kimi Raikkönen keppir með Lotus Renault liðinu á næstu tvö keppnistímabilin.
Kimi Raikkönen keppir með Lotus Renault liðinu á næstu tvö keppnistímabilin. MYND: REnault
Finninn Kimi Raikkönen, fyrrum heimsmeistari í Formúlu 1, hefur samið við Renault liðið um keppa með því næstu tvö árin. Raikkönen varð heimsmeistari með Ferrari árið 2007, en hætti í Formúlu 1 í lok ársins 2009 og hefur keppt í rallakstri síðan.

Raikkönen skrifaði undir tveggja ára samning við Renault liðið, sem mun heita Lotus Renault á næsta ári eftir nafnabreytingu sem FIA hefur gefið leyfi fyrir.

Liðið er í eigu Geni Capital fyrirtækisins og ökumenn liðsins á þessu ári voru Vitaly Petrov, Nick Heidfeld og Bruno Senna sem tók við sæti Heidfeld á tímabilinu. Liðið er staðsett í Enstone í Bretlandi og er í samstarfi við Lotus sportbílaframleiðandann breska.

„Ég er hæstánægður að vera koma aftur í Formúlu 1 eftir tveggja ára hlé og þakklátur Lotus Renault fyrir að bjóða mér þetta tækifæri", sagði Raikkönen í fréttatilkynningu frá liðinu.

„Tíminn minn í heimsmeistarakeppninni í rallakstri hefur verið mér notadrjúgur sem ökumaður, en hungur mitt í Formúlu 1 var yfirþyrmandi. Það var auðvelt val að mæta aftur til leiks með Lotus Renault, af því ég hef verið hrifinn af metnaði liðsins. Núna hlakka ég til að spila stóran þátt í að koma liðinu í fremstu röð", sagði Raikkönen.

Gérard Lopez stjórnarformaður Geni Capital sem á liðið sem Raikkönen mun keppa með segir að liðið vilji tryggja að það geti fljótlega keppt á toppnum. Lopez sagði eftirfarandi um samningin við Raikkönen:



„Allt þetta ár höfum við sagt að liðið okkar væri að hefja nýja tíma. Að tjaldabaki höfum við unnið hörðum höndum að því að byggja grunn að árangursríku skipulagi og að tryggja að við getum fljótlega keppt á toppnum. Ákvörðun Raikkönen að mæta aftur í Formúlu 1 með okkur er fyrsta skrefið af nokkrum sem við ætlum að tilkynna, sem ætti að gera okkur samkeppnisfærari í framtíðinni. Auðvitað hlakkar okkur til að vinna með meistara. Fyrir hönd liðs okkar langar okkur að bjóða Raikkönen velkominn til Enstone, sem er staður sem hefur alltaf hlutina á mannlega hátt í Formúlu 1."

 

Raikkönen hefur unnið 18 Formúlu 1 mót á ferlinum og 16 sinnum náð besta tíma í tímatöku. Hann hóf ferillinn í Formúlu 1 með Sauber liðinu árið 2001, en gekk síðan til liðs við McLaren árið eftir. Raikkönen keppti með McLaren til loka ársins 2006, en fór síðan til Ferrari og varð meistari með liðinu 2007. Hann hætti í Formúlu 1 í lok ársins 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×