Formúla 1

Möguleiki Vettel á að jafna met Schumacher úr sögunni í ár

Sebastian Vettel á mótssvæðinu í Abú Dabí í gær.
Sebastian Vettel á mótssvæðinu í Abú Dabí í gær. MYND: Getty Images/Mark Thompson/Red Bull Racing
Christian Horner, yfirmaður meistaraliðs Red Bull sagði Sebastian Vettel hafa verið vonsvikinn eftir keppnina í Abu Dabí í gær eins og allt liðið. Vettel féll úr leik í fyrsta hring eftir að afturdekk hvellsprakk og engin skýring hefur enn fundist á því hvað var þess valdandi. Vettel var í fyrsta sæti þegar dekkið sprakk.

Vettel átti fyrir keppnina möguleika á að jafna met Michael Schumacher frá árinu 2004, en þá vann Schumacher 13 mót á keppnistímabilinu. Vettel hefði þurft að vinna mótið í Abú Dabí og síðasta mót ársins í Brasilíu til að jafna árangur landa síns frá Þýskalandi. Vettel hefur unnið 11 mót á árinu.

Horner hrósaði Vettel fyrir þá viðleitni að staldra við á þjónustusvæðinu eftir vonbrigðin í mótinu og þá staðreynd að hann vildi hjálpa Mark Webber og liðinu í heild sinni það sem eftir lifði móts. Vettel fylgdist með þeim sem stýra gangi mála hjá Red Bull á þjónustusvæðinu eftir að hann féll úr leik.

„Hann drekkur upplýsingar í sig eins og svampur. Hann sá möguleika á því að miðla reynslu sinni til liðsfélaga sína og tækifæri til að upplifa hvernig er að starfa á þeim stað sem ákvarðanir eru teknar á þjónustusvæðinu. Hann vill skilja gang mála og gefa ráð og hjápa," sagði Horner um mál Vettel í frétt á autosport.com í dag.

Horner viðurkenndi að Vettel hefði verið mjög vonsvikinn að missa möguleikann sigri úr hendi sér í upphafi mótsins í gær.

„Allt liðið var vonsvikið, af því við vorum í stöðu til að sigra. Vettel stóð sig ofur vel í tímatökunni, ók einn sinn besta hring á ferlinum til að tryggja sér fremsta stað á ráslínunni. Vettel gerði allt rétt. Hann ræsti af stað og var kominn í forystu í fyrstu beygju og það voru grimmileg óheppni að verða hætt keppni á þennan hátt."

„Auðvitað var hann vonsvikinn, en hann var ekkert að flýta sér frá brautinni. Hann hjálpaði liðinu og liðsfélaga sínum. En hann ætlar að ljúka tímabilinu á góðum nótum og mun mæta tvíelfdur til leiks í Brasilíu," sagði Horner en lokamót ársins verður þar 27. nóvember.

Horner sagði að Red Bull tæki sigurum ekki sem sjálfsögðum hlut og því fagnaði liðið alltaf vel, ef sigur liti dagsins ljós hjá liði sínu.

„Það er mjög erfitt að vinna kappakstursmót. Það þarf allt að smella saman og tímabilið hefur verið ótrúlegt fyrir liðið. Við höfum unnið ellefu af átján mótum til þessa og náð fremsta stað á ráslínu í öllum mótum nema einu og náð titlum í keppni ökumanna og bílasmiða. Það hefði verið gaman að vinna hér eins og síðustu ár, en vegna þess að dekk sprakk gekk það ekki upp," sagði Horner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×