Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segir að Evrópusambandið sé „dæmt til þess að falla“ vegna þess að munurinn á innviðum hagkerfanna í Suður- og Norður Evrópu sé einfaldlega of mikill. Þessi orð lét Greenspan falla í viðtali við CNBC í gær.
Greenspan sagði að árið 1999 hafi verið altalað að hagstjórn þyrfti að vera samræmd til þess að evrusvæðið gæti virkað vel. „Það var við því búist að Suður-Evrópu þjóðir myndu haga sér eins og Norður-Evrópu þjóðirnar, Ítalir myndu haga sér eins og Þjóðverjar. Það hefur ekki gerst, og mun ekki gerast."
Jafnframt sagðist Greenspan telja að munurinn á hagkerfum Norður- og Suður Evrópuríkja hefði verið stórkostlega vanmetinn. Óhjákvæmileg afleiðing af þessu vanmati væri mun meiri lífskjaraskerðing í Suður-Evrópu en búist hafði verið við.
Umfjöllun CNBC og viðtalið við Greenspan má sjá hér.
