Fótbolti

Carlos Tevez neitaði að koma inn á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roberto Mancini og Carlos Tevez fyrr á tímabilinu.
Roberto Mancini og Carlos Tevez fyrr á tímabilinu. Nordic Photos / Getty Images
Roberto Mancini, knattspyrnustjóri Manchester City, staðfesti eftir leik liðsins gegn Bayern München í Meistaradeild Evrópu í kvöld að Carlos Tevez hafi neitað að koma inn á sem varamaður í leiknum.

Mancini ætlaði Tevez að koma inn á snemma í síðari hálfleik en hann neitaði. Tevez hefur marglýst því yfir að hann vilji losna frá félaginu og koma sér í burtu frá Manchester.

„Ég get ekki sætt mig við það að einn leikmaðurinn neiti að koma inn á," sagði Mancini við fjölmiðla eftir leikinn í kvöld.

„Ég vildi setja hann inn á en hann neitaði. Þetta er afar slæm staða fyrir mig. Hvað mig varðar er hann búinn að vera. Hann er búinn að vera."

„Getur þú ímyndað þér ef leikmaður Bayern, Milan og Manchester United hefði hagað sér svona.“

Það gekk á ýmsu hjá Mancini í kvöld en Edin Dzeko, sóknarmaður City, var ekki ánægður með að vera tekinn út af í kvöld. „Hann átti slakan leik. Það er ég sem ætti að vera óánægður en ekki hann. Þetta er í síðasta skipti sem leikmaður mun haga sér svona undir minni stjórn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×