Viðskipti erlent

Sólin skín á mörkuðum í Evrópu

Markaðir í Evrópu hafa verið að rétta verulega úr kútnum í dag. Það eru einkum námufélög, sem vinna gull, og olíufélög sem leiða hækkanir dagsins.

FTSE vísitalan í London hefur hækkað um 2,6%, Dax í Frankfurt um 1,2% og Cac 40 í París um 2,2%. Stoxx Europe 600 sem mælir gengi 600 stærstu félaganna í evrópskum kauphöllum hefur hækkað um 2,3%. Stendur vísitalan í rúmum 228 stigum sem er nokkuð frá botninum í ár sem var 223 stig.

Það er helst í kauphöllinni í Kaupmannahöfn sem sólin hefur ekki náð í gegnum gluggana en þar hefur C20 vísitalan aðeins hækkað um 0,1%.

Þá má geta þess að búist er við góðum hækkunum á Wall Street á eftir þegar markaðir þar verða opnaðir. Samkvæmt utanmarkaðsviðskiptum mun Dow Jones vísitalan hækka um 1,6%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×