Degi eftir að verkfallsaðgerðum knattspyrnumanna á Spáni var hætt hefur nú verið tilkynnt að engir leikir fari fram í ítölsku úrvalsdeildinni um helgina vegna verkfalls samtaka knattspyrnumanna þar í landi.
Samningur samtakanna við samtök knattspyrnufélaga á Ítalíu rann út í lok síðustu leiktíðar og hafa aðilar ekki enn náð saman um nýjan samning.
Ágreiningur þeirra snýst um tvö atriði. Annars vegar um að félögin geti skyldað leikmenn til að æfa í einrúmi séu þeir í ónáð hjá knattspyrnustjóra liðsins og hins vegar um að leikmennirnir standi straum af því að greiða nýja skatta sem ítölsk yfirvöld hafa sett á hátekjufólk þar í landi.
Damiano Tommasi, formaður leikmannasamtakanna, hefur nú staðfest að engir leikir fari fram um helgina vegna verkfallsins. Viðræður séu þó enn í gangi.
Keppni í deildinni hefst því ekki fyrr en þann 10. september í fyrsta lagi.

