Diego Forlan, leikmaður Atletico Madrid á Spáni, er á leið til Inter á Ítalíu að sögn knattspyrnustjóra fyrrnefnda liðsins.
Forlan hefur verið hjá Atletico í fjögur ár og er nú ætlað að fylla í skarð Samuel Eto'o hjá Inter.
Hann kom ekki með Atletico til Portúgal þar sem liðið mætti Vitoria Guimaraes í Evrópudeild UEFA á fimmtudaginn.
„Nú vitum við af hverju. Hann á í samningaviðræðum við Inter og er það almenn vitneskja.“
„Það verður líklega gengið frá þessu á næstu klukkustundum og þá verður hann ekki lengur leikmaður Atletico.“
Fyrir stuttu missti Atletico annan framherja, Sergio Agüero, til Manchester City en fékk þess í stað Falcao sem sló í gegn með Porto á síðustu leiktíð.

